Eftir ansi mörg mögur ár í Eyjafjarðaránni er heldur að rofa til. 777 bleikjur voru skráðar á land sl. sumar en það er mesta veiði síðan 2006. Hún á samt langt í land með að ná gullaldarárunum þar sem hún fór mest uppí rúmlega 3600 bleikjur árið 1997. Þó að ástæða hrunsins í ánni sé líklega að stórum hluta náttúrulegar orsakir má ekki útiloka einnig að ofveiði hafi verið hluti af því að hún hrundi eins langt niður og raunin varð. Vissulega minnkaði bleikjuveiði um allt land en dýfan í Eyjafjarðaránni varð mun meiri en í flestum ám. Ég á þar hlut eins og aðrir, það kom aldrei til greina að sleppa fiskum. Eftir að ég fór að veiða andstreymis með kúluhausum þá fór maður að taka fleiri og fleiri rígvænar bleikjur sem ekki gáfu sig áður nema ein og ein. Andstreymisveiðin gat skilað manni ævintýralegri veiði og margir veiðimenn í Eyjafjarðaránni fóru á stuttum tíma að tileinka sér þessa veiðiaðferð. Líklega sváfum við á verðinum varðandi veiðistjórnun og það má ekki gerast aftur. Hér að neðan má sjá töflu yfir bleikjuveiðina síðustu 30 ár.
Eyjafjarðará bleikjuveiði 1987 – 2017
Ár Fjöldi
- 1987 1557
- 1988 1467
- 1989 127
- 1990 2123
- 1991 2836
- 1992 3095
- 1993 3080
- 1994 3319
- 1995 2151
- 1996 2098
- 1997 3625
- 1998 3137
- 1999 2900
- 2000 2620
- 2001 2931
- 2002 1954
- 2003 1678
- 2004 2052
- 2005 1516
- 2006 916
- 2007 610
- 2008 723
- 2009 672
- 2010 736
- 2011 593
- 2012 458
- 2013 235
- 2014 449
- 2015 246
- 2016 323
- 2017 777